Hafðu samband
+354-846-9750 / sunnuhv@gmail.com

Íslandsmót á Akureyri

Nýlega lauk íslandsmóti yngri flokka, sem haldið var á Akureyri. Mótið gekk vel, veðrið var gott flesta dagana og góð stemming var á fólkinu.

Arnar var með fjögur hross. Kaspar frá Kommu í tölti og gerðu þeir vel og fóru í 6,93 í tölti og voru í 5-8 sæti eftir forkeppni, Mána frá Galtanesi í tölti og fjórgang, í fjórgangnum var fetið eitthvað að stríða þeim og þeir enduðu í 6,57 sem skilaði þeim rétt fyrir utan b-úrslit. Í töltinu hins vegar gekk mjög vel og fengu þeir frábæra einkunn uppá 7,30 og fjórða sætið. Arnar valdi Mána í tölt úrslitin og gekk þeim ágætlega fengu 7,17 í einkunn og fimmta sætið.

Vonandi frá Bakkakoti var í fimmgang og gæðingaskeiði, hann skeiðaði ekki í gæðingaskeiðinu en gerði fínt prógram í fimmganginum og enduðu þeir efstir í b-úrslitunum eftir forkeppni. Í úrslitunum gekk ágætlega og enduðu þeir áttundu. Vænting frá Akurgerði var í slaktaumatölti, Hún var virkilega góð þangað til það kom að slaka taumnum en þá varð hún klárgeng og gekk ekki vel, en endaði samt í 6,13 sem er ágætt.

Védís stóð sig virkilega vel. Þetta er þriðja íslandsmótið sem hún keppir á sem er ótrúlegt miðað við að hún er bara 9 ára. Hún var með Flóka sinn í tölti og fjórgang. Hún reið frábært fjórgangsprógram og fór í sína hæstu tölu á honum 6,00. Í töltinu stóð hún sig einnig mjög vel og fór í 5,77. Þessar tölur komu henni í b-úrslit, með Blesa gamla frá Laugarvatni gekk henni vel, hún reið í 5,97 í fjórgangnum og var fjórða í fimi A.

Védís valdi Blesa í fjórgangsúrslitin og endaði önnur þar með frábæra einkunn 6,53. Á Flóka endaði hún einnig önnur í b-úrslitinum í töltinu. Frábær árangur hjá þeirri yngstu.

Glódísi gekk frábærlega á þessu íslandsmóti. Hún var með tvo hesta gæðinginn Kamban frá Húsavík og skeiðhestinn Birting frá Bólstað. Birtingur og Glódís stóðu sig vel í gæðingaskeiði unglinga og enduðu önnur þar á eftir Gústafi Ásgeiri á Fálka. Glódís reið frábærar forkeppnir á Kamban sínum og fór í 7,00 í töltinu, 6,60 í fjórganginum og 6,40 í fimi A. Hún var efst í öllum þessum greinum og var því samanlagður íslandsmeistari. Í fjórgangum gekk ágætlega og endaði hún í öðru til þriðja sæti ásamt Ylfu Guðrúnu. Í töltinu gekk frábærlega og vann hún töltið með frábæra einkunn á yfirferðar tölti 8,50.

Frábær árangur og þrír íslandsmeistaratitlar hjá Glódísi Rún sem núna er komin með níu íslandsmeistaratitla.